Skorar Gylfi aftur gegn Chelsea?

Gylfi Þór Sigurðsson.
Gylfi Þór Sigurðsson. AFP

Antonio Conte knattspyrnustjóri Chelsea segir að sínir menn verði að hafa góðar gætur á Gylfa Þór Sigurðssyni og Fernando Llorente þegar Chelsea tekur á móti Swansea í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu á morgun.

Gylfi Þór hefur komið að 16 mörkum Swansea í deildinni á tímabilinu, meira en nokkur annar miðjumaður í deildinni en hann hefur skorað 8 mörk og lagt upp 8 og hann skoraði í fyrri viðureign liðanna á Liberty vellinum þegar liðin skildu jöfn, 2:2.

„Ef þú horfir á leiki Swansea á móti Liverpool og Manchester City þá áttar þú þig á því að þetta verður erfiður leikur. Ég er sannfærður um að mínir leikmenn skilja það. Swansea-liðið hefur verið undir stjórn Paul Clemente vel skipulagt varnarlega, er hættulegt sóknarlið og er gott í föstum leikatriðum. Við þekkjum einkenni leikmanna eins og Llorente, Gylfa Sigurðssonar og Fer,“ segir Conte.

Það má reikna með því að það verði á brattann að sækja fyrir Swansea enda hefur Chelsea-liðið verið í gríðarlegri siglingu nær allt tímabili. Liðið hefur unnið 14 af 15 heimaleikjum sínum í öllum keppnum. Swansea hefur verið á góðu skriði undanfarnar vikur og hefur náð í 12 stig í síðustu sex leikjum sínum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert