Bað Klopp afsökunar

Klopp á hliðarlínunni í leiknum gegn Manchester City í gær.
Klopp á hliðarlínunni í leiknum gegn Manchester City í gær. AFP

Adam Lallana, miðjumaðurinn skæði í liði Liverpool, baðst afsökunar eftir leikinn gegn Manchester City á Ethiad-vellinum í Manchester í gær.

Í stöðunni 1:1 þegar skammt var til leiksloka hitti Lallana ekki boltann úr algjöru dauðafæri en 1:1 urðu úrslitin í frábærum leik þar sem bæði lið fóru illa með góð færi.

„Eftir leikinn kom Adam strax til mín og baðst afsökunar. Ég hugsaði hvers vegna? En nú veit ég af hverju hann hélt að hann ætti að gera það en það þurfti hann ekki því frammistaða hans í leiknum var enn og aftur frábær,“ sagði Jürgen Klopp eftir leikinn.

Klopp fannst sínir menn hafa átt betri tækifæri til að vinna leikinn en viðurkenndi að liðið hafi verið heppið að Agüero fór illa með nokkur færi. Liverpool hefur ekki tapað í 10 leikjunum á móti liðunum sem eru í sex efstu sætunum.

„Chelsea hefur verið frábært á þessu tímabili og verður líklega meistari og það sanngjarnt en liðin þar á eftir munu berjast um meistaradeildarsætið. Við erum eitt þeirra og það er gott. Ef við náum því verður það frábært en ef ekki þá verður það vonbrigði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert