Af hverju Liverpool ætti að kaupa Gylfa

Gylfi Þór Sigurðsson hefur farið á kostum í vetur.
Gylfi Þór Sigurðsson hefur farið á kostum í vetur. AFP

Ein stærsta stuðningsmannasíða Liverpool hefur tekið saman ástæður fyrir því af hverju Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri liðsins, ætti að kaupa Gylfa Þór Sigurðsson frá Swansea í sumar.

Gylfi var orðaður við Liverpool árið 2012 þegar hann var fyrst hjá Swansea, en hann gekk þá í raðir Tottenham. Hann hefur verið frábær í vetur og á stærstan þátt í því að Swansea náði að lyfta sér upp úr fallsæti.

Hér eru ástæðurnar sem greinarhöfundur gefur fyrir því að Liverpool ætti að kaupa Gylfa og eru þær raunar góðar ástæður fyrir sem flest lið ef út í það er farið:

  1. Mörk og stoðsendingar – Gylfi hefur skorað og lagt upp 10 mörk eða fleiri öll tímabil nema eitt síðan hann braust inn í aðallið Reading árið 2009.
  2. Föst leikatriði – Enginn leikmaður hefur skapað fleiri marktækfæri úr hornspyrnum (27) og aukaspyrnum (12) en Gylfi í vetur.
  3. Líkamlegir burðir – Gylfi er hærri í loftinu en allir þeir Coutinho, Sadio Mane og Roberto Firmino.
  4. Vinnusemi – Gylfi hefur hlaupið mest allra leikmanna í deildinni í vetur, eða samtals 318,2 kílómetra í deildinni.
  5. Viðhorf – Gylfi er þekktur fyrir að láta verkin tala á vellinum.
  6. Fjölhæfni – Gylfi hefur spilað í fimm mismunandi stöðum í vetur; miðri miðjunni, framarlega á miðjunni, hægri og vinstri kanti og sem framherji.
  7. Reynsla – Gylfi hefur spilað í sjö ár í hæsta gæðaflokki og hefur fyrir löngu sannað sig í úrvalsdeildinni.
  8. Leiðtogahæfni – Gylfi er 27 ára gamall en yrði einn elsti útileikmaður Liverpool og er góð fyrirmynd fyrir yngri leikmenn í kringum sig.
  9. Tekur af skarið – Gylfi er þekktur fyrir að taka af skarið þegar mest þarf á að halda.
  10. Verðmiðinn – Þrátt fyrir hvað Gylfi hefur átt frábært tímabil hefur Swansea verið í vandræðum og gæti fallið úr deildinni. Fari það svo ætti verðmiðinn að lækka, þótt Gylfi hafi skrifað undir fjögurra ára samning síðasta sumar.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert