Hefur ekki horft á leikinn gegn Íslendingum

Roy Hodgson þjálfari Englands á hliðarlínunni gegn Íslandi á EM …
Roy Hodgson þjálfari Englands á hliðarlínunni gegn Íslandi á EM í fyrrasumar. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Roy Hodgson fyrrverandi landsliðsþjálfari Englendinga í knattspyrnu segist ekki hafa horft á viðureign Englands og Íslands frá því á EM í fyrra en eftir tapið gegn Íslendingum í 16-liða úrslitunum í Nice sagði Hodgson upp starfi sínu.

„Ég þarf ekki að horfa á leikinn. Ég fullkomlega hugmynd um það hvað gerðist og hvers vegna,“ segir Hodgson, sem tekur ekki undir þá gagnrýni sem lið hans fékk í kjölfar tapleiksins á móti Íslendingum.

Eitt af þeim atriðum sem Hodgson var harðlega gagnrýndur fyrir var að hann lét framherjann og markaskorarann mikla, Harry Kane framkvæma hornspyrnurnar í leiknum og þá breytti hann liðsuppstillingu liðsins frá leikjunum í riðlakeppninni

„Þetta er algjört bull. Fólk ætti að skammast sín af þessum hlutum. Hvers vegna ætti ekki Harry Kane að taka hornin. Ef hann er besti framherjinn í liðinu og gefur bestu sendingarnar hvers vegna ætti hann ekki að gera það?. Ég er mjög stoltur af því sem ég afrekaði með liðið,“ segir Hodgson.

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert