Arsenal með Turan í sigtinu

Arda Turan í leik með Barcelona.
Arda Turan í leik með Barcelona. AFP

Enskir fjölmiðlar greina frá því í dag að Arsenal hafi í hyggju að bjóða Barcelona 25 milljónir punda í tyrkneska landsliðsmanninn Arda Turan.

Turan hefur átt erfitt uppdráttar hjá Katalóníuliðinu frá því hann gekk í raðir þess frá Atletíco Madrid fyrir tveimur árum. Hann hefur aðeins komið við sögu í 54 leikjum með liðinu á þessum tveimur árum og oftar en ekki hefur hann komið inná sem varamaður.

Þessi þrítugi miðjumaður á þrjú ár eftir af samningi sínum við Börsunga en að því er fram kemur í enska blaðinu The Times vill Arsenal fá hann til liðs við sig og sér fyrir sér að hann komi í staðinn fyrir Þjóðverjann Mesut Özil en líklegt er að hann yfirgefi Lundúnaliðið í sumar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert