Borgarlífið stöðvast í 90 mínútur

Jürgen Klopp knattspyrnustjóri Liverpool.
Jürgen Klopp knattspyrnustjóri Liverpool. AFP

Jürgen Klopp knattspyrnustjóri Liverpool kveðst hafa áttað sig á því um leið og hann kom til félagsins hversu mikilvægir nágrannaslagirnir við Everton væru. Einn slíkur er á morgun þegar grannliðin mætast í ensku úrvalsdeildinni klukkan 11.30.

„Ég gerði mér grein fyrir því á augabragði hversu mikilvægir þessir leikir væru. Borgarlífið hreinlega stöðvast í 90 mínútur á meðan þeir fara fram," sagði Klopp sem að vanda þurfti að svara mörgum spurningum um sína leikmenn á fréttamannafundi núna fyrir hádegið.

Adam Lallana verður frá keppni í mánuði hið minnsta eftir að hafa meiðst í vináttulandsleik Englands og Þýskalands. Klopp sagði að Daniel Sturridge myndi ekki spila á morgun, hann væri í endurhæfingu og ekki leikfær. Fyrirliðinn Jordan Henderson er ekki tilbúinn og Klopp staðfesti að smá bakslag hefði komið í hans meiðsli.

„Við mætum með alla sem við getum. Hinir eru allir tilbúnir og enginn annar en Adam á við eitthvað slæmt að stríða," sagði Klopp og staðfesti að Roberto Firmno og Philippe Coutinho hefðu komið heilir heilsu frá Brasilíu þar sem þeir spiluðu tvo leiki í undankeppni HM.

Liverpool mætir  til leiks gegn Everton í fjórða sæti deildarinnar með 56 stig, þremur stigum á eftir Tottenham sem er í öðru sæti og einu á eftir Manchester City, en fjórum stigum á undan Manchester United sem er í fimmta sæti og á hinsvegar tvo leiki til góða.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert