Hneig niður á æfingu Tottenham

Ugo Ehiogu þjálfar hjá Tottenham.
Ugo Ehiogu þjálfar hjá Tottenham. AFP

Ugo Ehiogu, fyrrverandi landsliðsmaður Englands í knattspyrnu og leikmaður í ensku úrvalsdeildinni um langt árabil, hneig niður á æfingu hjá Tottenham í dag en hann þjálfar 23 ára lið félagsins.

Hann var fluttur á sjúkrahús í London og beðið er nánari fregna af líðan hans.

„Allir hjá félaginu senda Ugo og fjölskyldu hans sínar bestu óskir,“ segir í yfirlýsingu frá Tottenham.

Ehiogu er 44 ára gamall og lék sem varnarmaður með WBA, Aston Villa, Middlesbrough, Leeds, Rangers og Sheffield United á tuttugu ára ferli sem atvinnumaður en hann lagði skóna á hilluna árið 2009. Ehiogu spilaði fjóra landsleiki fyrir Englands hönd og skoraði eitt mark. Hann hefur þjálfað hjá Tottenham í fullu starfi frá 2014.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert