Tímabilið líklega búið hjá Zlatan

Zlatan Ibrahimovic liggur kvalinn í grasinu á Old Trafford í …
Zlatan Ibrahimovic liggur kvalinn í grasinu á Old Trafford í gærkvöld. AFP

Zlatan Ibrahimovic, framherji Manchester United, spilar að öllum líkindum ekki meira með á tímabilinu vegna meiðsla á hné sem hann varð fyrir í leiknum gegn Anderlecht í Evrópudeildinni í gærkvöld.

Sky Sports hefur heimildir fyrir þessu en ekki hafa borist neinar fréttir úr herbúðum Manchester United um meiðsli Zlatans né Marcosar Rojo sem meiddist illa í leiknum og var borinn af velli.

Zlatan gæti því verið búinn að spila sinn síðasta leik fyrir Manchester United en Svíinn hefur svo sannarlega gert það gott fyrir liðið og hefur skorað 28 mörk í öllum keppnum með liðinu á tímabilinu.

Framtíð hans hjá United er í óvissu. Hann samdi til eins ár með möguleika á framlengingu um eitt ár en honum hafa borist freistandi tilboð frá félögum í Bandaríkjunum og Kína og næsti viðkomustaður hans á ferlinum gæti verið á öðrum hvorum staðnum. Hann hefur í það minnsta ekki ákveðið hvort hann vill framlengja dvöl sína hjá United.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert