Svöruðu efasemdaröddunum í þessum leik

Arsene Wenger, knattspyrnustjóri Arsenal, fagnar sigri liðsins gegn Manchester City …
Arsene Wenger, knattspyrnustjóri Arsenal, fagnar sigri liðsins gegn Manchester City af mikilli innlifun í dag. AFP

„Fólk hefur efast um okkur eftir að við gengum gegnum erfiða tíma. Við þjöppuðum okkur saman og svöruðum þeim sem hafa gagnrýnt okkur með góðri spilamennsku okkar í þessum leik,“ sagði Arsene Wenger, knattspyrnustjóri Arsenal, sigurreifur í samtali við BBC eftir sigur liðsins gegn Manchester City í undanúrslitum ensku bikarkeppninnar í knattspyrnu karla í dag.

„Ég held að það viti allir hversu miklar taugar ég hef til félagsins. Mér finnst staða félagsins í heild sinni sterk og liðið okkar vel skipulegt og öflugt. Ég mun yfirgefa Arsenal einn daginn, en það sem skiptir mestu máli er að Arsenal haldi áfram í rétta átt,“ sagði Wenger um framtíðina, en samningur hans við félagið rennur út í sumar.

„Alexis Sánchez var frábær eins og allt liðið var. Sánchez átti reyndar erfitt uppdráttar í upphafi leiksins, en óx stöðugt ásmegin eftir því sem leið á leikinn. Sánchez gefst aldrei upp og hann hefur mikinn sigurvilja. Sánchez er samningsbundinn félaginu og verður hér á næsta ári og vonandi lengur en það,“ sagði Wenger um Sánchez sem orðaður hefur verið við brottför frá félaginu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert