Efast um að Warnock vilji selja hann

Aron Einar Gunnarsson.
Aron Einar Gunnarsson. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Landsliðsfyrirliðinn Aron Einar Gunnarsson býst ekki við því að Neil Warnock, stjóri hans hjá B-deildarliði Cardiff á Englandi, vilji selja hann í sumar en Aron Einar er á sinni sjöttu leiktíð hjá félaginu. Þetta kemur fram í viðtali við hann á vefmiðlinum 433.is í dag. 

Aron Einar var aðeins í byrjunarliði Cardiff 16 sinnum á síðustu leiktíð og hugsaði sér til hreyfings í sumar en staðan er allt önnur á honum í dag og hefur hann verið einn besti leikmaður liðsins á tímabilinu. „Ég held að Warnock komi ekki til með að selja mig, ég efast stórlega um það,“ sagði Aron Einar við  433.is í dag.

„Ef það kemur eitthvert tilboð þá veit ég alveg að Cardiff myndi skoða það en ég reikna með að Warnock ýti því bara frá sér. Ég er ekkert að stressa mig á þessu, maður var meira að hugsa um það í fyrra að koma sér í burtu. Ég var ekki að spila og fannst ég ekki vera hluti af þessu, núna er allt annar fílingur yfir manni,“ sagði Aron í samtali við 433.is.

Aron Einar segir einnig í viðtalinu að óljóst sé hversu lengi hann muni verða áfram hjá Cardiff og hvert næsta skref á ferli hans sé, en að hann sé farinn að finna fyrir leikjaálaginu í ensku B-deildinni sem er ein sú harðasta í heimi en þar eru deildarleikirnir 46 talsins ár hvert.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert