Kemst Newcastle upp í kvöld?

Rafael Benitez knattspyrnustjóri Newcastle.
Rafael Benitez knattspyrnustjóri Newcastle. AFP

Newcastle United getur í kvöld komist á ný upp í ensku úrvalsdeildina í knattspyrnu. Til þess þarf liðið að vinna Preston í eina leik kvöldsins í ensku B-deildinni.

Lærisveinar Rafa Benítez hafa allt frá fyrstu umferð stefnt að því að komast upp en hafa hikstað í síðustu leikjum. Síðasti sigur þeirra kom 5. apríl gegn Burton Albion en eftir það hafa fylgt tvö töp, gegn Sheffield Wednesday og Ipswich Town, auk jafnteflis gegn Leeds.

„Þetta er ennþá undir okkur komið. Við þurfum að tryggja það að við gerum okkar í kvöld. Þegar önnur lið vinna ekki þá er það okkur í hag,” sagði Benítez sem tók við liði Newcastle í fyrra í botnbaráttu ensku úrvalsdeildarinnar.

Leikurinn í kvöld hefst kl. 18:45. Brighton & Hove Albion er þegar komið upp en í baráttu í umspilinu verða Reading, Sheffield Wednesday, Huddersfield Town, Fulham og Leeds.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert