Ekki víst að Hazard verði áfram

Antonio Conte, knattspyrnustjóri Chelsea.
Antonio Conte, knattspyrnustjóri Chelsea. AFP

Antonio Conte, knattspyrnustjóri Chelsea, kveðst ekki vera fullviss um að Eden Hazard, framherji liðsins, verði áfram í herbúðum félagsins á næsta keppnistímabili. Hazard hefur skorað 15 mörk fyrir Chelsea á yfirstandandi leiktíð, en hann hefur verið orðaður við Real Madrid undanfarið.

„Það er ómögulegt fyrir mig að slá því föstu að Hazard verði leikmaður Chelsea á næstu leiktíð. Það á ekki bara við um Hazard heldur alla leikmenn liðsins. Það er stjórn félagsins sem tekur lokaákvörðun í svona málum og ég get bara sagt mína skoðun á málinu,“ sagði Conte á blaðamannafundi í gær. 

„Ég vil að sjálfsögðu halda Hazard og ég tel að félagið sé ekki á þeim buxunum að selja hann. Stefnan er sett á að halda lykilleikmönnum liðsins og styrkja liðið í sumar. Ég held að Hazard sé ánægður hjá Chelsea, en maður veit hins vegar aldrei hvað gerist í fótboltanum,“ sagði Conte enn fremur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert