Liðin farin að berjast fyrir lífi sínu

Gylfi og liðsfélagar hans fagna markinu á Old Trafford.
Gylfi og liðsfélagar hans fagna markinu á Old Trafford. AFP

Gylfi Þór Sigurðsson segir lið sitt, Swansea City, ekki ætla að gefa neitt eftir í baráttunni um að halda sér í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu. Líklegt þykir að Swansea og Hull muni berjast um síðasta lausa sætið í deildinni, allt til loka. 

Þegar þrem leikjum er ólokið í deildinni er Swansea í fallsæti, tveim stigum á eftir Hull, en Gylfi tryggði Swansea jafntefli gegn Manchester United á Old Trafford um helgina, er hann skoraði með glæsilegri aukaspyrnu í seinni hálfleik. 

„Vonandi erum við einu stigi nær því að halda sæti okkar í deildinni,“ sagði Gylfi eftir leik. „Við erum að halda í við Hull og það var mikilvægt að fara ekki tómhentir heim frá Old Trafford. Nú er lítið eftir af mótinu og liðin eru farin að berjast fyrir lífi sínu.“

Marcus Rashford, leikmaður Manchester United, fékk vítaspyrnu í leiknum og voru liðsmenn Swansea allt annað en sáttir við dóminn. Gylfi vildi þó ekki tjá sig mikið um það. 

„Við getum ekki farið að kenna öðrum um. Við hefðum átt að vera með fleiri stig á þessum tímapunkti og við getum sjálfum okkur um kennt. Það leit þó ekki út fyrir að vera mikil snerting,“ sagði Gylfi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert