Tottenham sagt vera með Gylfa í sigtinu

Gylfi Þór Sigurðsson.
Gylfi Þór Sigurðsson. AFP

Tottenham er að íhuga að reyna að fá Gylfa Þór Sigurðsson aftur til liðs við sig en Gylfi lék í tvö ár með Lundúnaliðinu áður en hann gekk í raðir Swansea.

Gylfi yfirgaf Tottenham á sama tíma og Mauricio Pochettino tók við stjórastarfinu hjá félaginu. Heimildir enska blaðsins Daily Mail herma að Pochettino sjái Gylfa sem betri kost en Ross Barkley, miðjumann Everton, og að hann fáist fyrir minna verð.

Verðmiðinn á Gylfa er talinn vera 25-30 milljónir punda en Everton er sagt vilja fá 50 milljónir punda fyrir Barkley sem hefur verið sterklega orðaður við Tottenham. Barkley á eitt ár eftir af samningi sínum við Everton og hefur enn sem komið er ekki viljað skrifa undir nýjan samning sem honum hefur staðið til boða.

Pochettino lét hafa eftir sér í desember að það hafi verið mistök hjá Tottenham að láta Gylfa fara en hann hefur svo sannarlega blómstrað hjá Swansea og hann á stærstan þátt í því að félaginu tókst að halda sæti sínu í ensku úrvalsdeildinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert