Erum ákaflega sorgmæddir (myndskeið)

José Mourinho á æfingasvæði Manchester United í dag.
José Mourinho á æfingasvæði Manchester United í dag. AFP

José Mourinho, knattspyrnustjóri Manchester United, segir að fólk í Manchester muni standa saman sem einn maður í kjölfar voðaverksins sem átti sér stað við Manchester Arena í gær þar sem 22 létu lífið í sjálfsmorðssprengingu og fjöldi fólks slasaðist.

Mourinho og lærsveinar hans minntust fórnarlamba árásarinnar með einnar mínútu þögn á æfingu liðsins í morgun eins og sjá má á meðfylgjandi myndskeiði en í dag heldur United til Stokkhólms og mætir Ajax þar í úrslitaleik Evrópudeildar UEFA annað kvöld.

„Við erum allir ákaflega sorgmæddir yfir þessum hörmulega atburði í gær. Við getum ekki tekið þetta úr huga okkar og hjörtu okkar slá með fórnarlömbunum og fjölskyldum þeirra,“ sagði Mourinho í yfirlýsingu sem hann sendi frá sér en Manchester United aflýsti í dag fréttamannafundi í kjölfar voðaverksins.

„Við höfum verk að vinna og við förum til Svíþjóðar til að klára það verk. Það er synd að geta ekki farið í þessa ferð glaðir í bragði eins og við erum alltaf fyrir stórleiki. Ég veit, þrátt fyrir minn stutta tíma hér, að fólk í Manchester mun standa saman sem einn maður.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert