Gylfi er ekki til sölu

Gylfi Þór Sigurðsson er mikið í fréttum í ensku pressunni …
Gylfi Þór Sigurðsson er mikið í fréttum í ensku pressunni í dag. AFP

Forráðamenn Swansea City segja að Gylfi Þór Sigurðsson sé ekki til sölu en í frétt breska blaðsins Mirror í morgun var greint frá því að Swansea hafi samþykkt 25 milljóna punda tilboð frá Everton í Gylfa Þór.

Steve Kaplan sem á stærsta hlutinn í Swansea segir í viðtali við vefinn WalesOnline að Gylfi sé ekki til sölu.

„Við vitum allir hversu mikilvægur Gylfi er og hann veit hversu mikils hann er metinn og elskaður hér. Það hefur áður verið mikill áhugi á honum og það komu nokkrar stórar fyrirspurnir um hann síðastliðið sumar og í janúarglugganum. Við vildum ekki selja hann þá og viljum ekki gera það núna,“ segir Kaplan.

„Hann á þrjú ár eftir af samningi sínum og er hann er hluti af framtíðarplönum okkar undir stjórn Paul Clement. Markmið okkar er að tryggja að við byggjum ofan á góðan árangur síðari hluta tímabilsins og það felur ekki í sér að selja bestu leikmennina,“ segir Kaplan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert