Erfiðasta tímabil sem ég hef gengið í gegnum

Gylfi Þór Sigurðsson.
Gylfi Þór Sigurðsson. AFP

Gylfi Þór Sigurðsson er kominn til Bandaríkjanna þar sem hann hvílir lúin bein eftir langt og erfitt tímabil með Swansea í ensku úrvalsdeildinni. Gylfi segir í samtali við mbl.is að tímabilið í ár hafi tekið mikið á sál og líkama en um leið hafi tímabilið verið eitt það besta á hans ferli.

„Það var mikill léttir þegar ljóst var að við héldum sæti okkar og þetta tímabil er það erfiðasta sem ég hef gengið í gegnum. Við vorum í þremur neðstu sætunum stóran hluta tímabilsins og í neðsta sætinu í kringum jólin svo þetta leit ekki vel út. Það voru flest allir búnir að dæma okkur niður og öll tölfræði gaf það til kynna að það yrði niðurstaðan en við náðum sem betur fer að snúa þessu við og lokaspretturinn hjá okkur var frábær,“ sagði Gylfi Þór í samtali við mbl.is.

Gylfi Þór Sigurðsson.
Gylfi Þór Sigurðsson. AFP

„Ég neita því ekki að sú hugsun flaug í kollinn á mér að værum á leið niður en ég hafði samt alltaf trú á því að hlutirnir myndu að lokum smella hjá okkur. Ég fann aldrei fyrir því að leikmenn misstu móðinn eins og gerist oft hjá liðum sem ganga illa. Við vissum að ef okkur tækist að vinna tvo leiki í röð þá gætu við snúið genginu við. Þetta gerðist og við fundum að sjálfstraustið óx jafnt og þétt. Við náðum svo að tryggja sæti okkar í mikilvægustu leikjunum undir lokin. Jafnteflið sem við gerðum við Manchester United á Old Trafford gaf okkur en meiri byr í seglin og við náðum að vinna þrjá síðustu leikina,“ sagði Gylfi Þór en það var einmitt hann sem jafnaði metin fyrir sína menn gegn United með glæsilegri aukaspyrnu.

Er ekkert að velta sér upp úr endalausum vangaveltum

Gylfa lætur sér fátt um finnast um endalausar fréttir sem hafa birst að undanförnu um möguleg vistaskipti hans en áhugi nokkurra liða um að fá hann í sínar raðir í sumar er mikill og ekki síst hjá Everton. Forráðamenn Swansea segja hins vegar að Gylfi sé ekki til sölu. Fótboltinn er hins vegar óútreiknanlegur þar sem hlutirnir geta verið fljótir að taka breytingum. Gylfi á þrjú ár eftir af samningi sínum við Swansea en komi tilboð sem félagið getur ekki hafnað gæti Gylfi spilað með öðru liði en Swansea á næsta tímabili.

„Ég er ekkert að velta þessum hlutum fyrir mér. Núna er ég bara að slaka á og safna kröftum eftir tímabilið. Ég ætla að spila golf og njóta lífsins,“ segir Gylfi við mbl.is en hann átti frábært tímabil með Swansea, skoraði 9 mörk og lagði upp 13 og var útnefndur leikmaður ársins hjá Swansea annað árið í röð af leikmönnum og stuðningsmönnum félagsins.

Hverju þakkar þú því að þú ert alltaf heill heilsu og spilar alla leiki frá upphafi til enda?

„Sjö, níu, þrettán,“ segir Gylfi og hlær. „Ég hugsa vel mig og hef gert það síðan ég var ungur. Auðvitað spilar heppni líka inn í. Margir leikmenn sem eru með mikinn sprengikraft eru oft gjarnir á að togna og eiga auðveldara með að meiðast en ég flokkast ekki í þennan hóp. Ég hugsa vel um líkamann fyrir og eftir leiki, passa vel upp á mataræðið og að fá góða hvíld,“ segir Gylfi Þór.

Gylfi Þór.
Gylfi Þór. AFP

Líklega mitt besta tímabil

Eins og áður segir átti Gylfi afar gott tímabil og framlag hans átti stærstan þátt í að Swansea náði að halda sæti sínu en Gylfi kom beint að 22 af 43 mörkum liðsins í deildinni.

„Þetta er líklega mitt besta tímabil þegar allt er tekið saman en það hefði verið skemmtilegra ef gengi okkar framan af tímabilinu hefði verið betra. Okkur gekk allt í mót og það gekk ýmislegt á utan vallar enda vorum með þrjá stjóra tímabilinu. En ég er mjög feginn að endirinn var góður og Swansea er áfram í deild þeirra bestu,“ sagði Gylfi Þór.

Gylfi segist lítið vera farinn að leiða hugann að leiknum gegn Króötum í undankeppni HM en Íslendingar taka á móti frábæru liði Króata á Laugardalsvellinum þann 11. júní.

„Þessa dagana er ég aðeins að hvíla hugann og heilann frá fótbolta í fyrsta skipti í langan tíma en aftarlega í kollinum er ég meðvitaður um að þessi leikur er í nánd. Það verður tilhlökkun að mæta Króötunum þar sem við ætlum að reyna að koma okkur í enn betri stöðu í riðlinum. Það eru ekki mörg lið sem vinna Króatíu. Lið þeirra er frábært og í því eru margir frábærir leikmenn. Það er ekki hlaupið að því að leggja Króatana af velli en það hlýtur að fara að styttast í sigur okkar á móti þeim. Jafntefli yrðu flott úrslit en stórkostleg ef við næðum að landa sigri,“ segir Gylfi Þór.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert