Arsenal bikarmeistari í 13. sinn

Arsenal varð í dag bikarmeistari í 13. skiptið er liðið lagði Chelsea að velli, 2:1, í stórskemmtilegum leik á Wembley í Lundúnum.

Arsenal hefur þar með oftast allra liða unnið þessa elstu bikarkeppni í heimi en liðið vann í 13. skiptið í dag og í sjöunda skiptið undir stjórn Arsene Wenger og tók liðið þar með fram úr Manchester United sem unnið hefur keppnina 12 sinnum.

Arsenal byrjaði leikinn af krafti og Alexis Sánchez kom Arsenal yfir strax á 5. mínútu með afar umdeildu marki þar sem hann virtist hafa handleikið boltann áður en hann skoraði markið.

Auk þess lyfti aðstoðardómarinn flaggi sínu og ræddi dómaratríóið málin vel áður en mark var dæmt, 1:0.

Leikurinn var bráðskemmtilegur og þar sem sótt var á báða bóga en staðan var 1:0 í hálfleik.

Leikurinn var einnig mikið fyrir augað í síðari hálfleiknum þar sem fjölmörg færi litu dagsins ljós. Á 68. mínútu dró til tíðinda er Victor Moses lét sig falla í teig Arsenal. Chelsea-menn vildu víti en dómari leiksins taldi, að því er virtist réttilega, að Moses hefði látið sig falla. Hann hafði skömmu áður fengið gult spjald og var því vísað af leikvelli.

Aðeins þremur mínútum síðar jafnaði Chelsea hins vegar metin. Diego Costa var þar að verki, fékk boltann í teignum, tók hann niður og skaut af stuttu færi skoti sem fór af varnarmanni og Ospina í marki Arsenal réð ekki við, 1:1.

Arsenal brunaði fram í næstu sókn, skipti Olivier Giroud inn á og hann átti sendinguna á Aaron Ramsey sem skallaði knöttinn í netið aðeins andartökum eftir að Chelsea komst yfir, 2:1. Urðu það lokatölur og Arsenal því bikarmeistari.

Arsenal 2:1 Chelsea opna loka
90. mín. Alexis Sánchez (Arsenal) fer af velli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert