Fer Fábregas til Þýskalands?

Fábregas með Antonio Conte, stjóra Chelsea.
Fábregas með Antonio Conte, stjóra Chelsea. AFP

Spænski miðjumaðurinn Cesc Fábregas gæti verið á leið frá Englandsmeisturum Chelsea og næsti viðkomustaður hans verður hugsanlega í Þýskalandi.

Ensku blöðin greina frá því í morgun að þýska meistaraliðið Bayern München hafi mikinn áhuga á að njóta krafta spænska miðjumannsins, sem hefur gengið illa að festa sig í ógnarsterku liði Chelsea.

Fábregas var mjög svekktur yfir því að vera ekki í byrjunarliði Chelsea í bikarúrslitaleiknum gegn Arsenal á laugardaginn og framtíð hans hjá Lundúnaliðinu ættu að ráðast á næstu dögum. Fábregas kom til Chelsea árið 2014 frá Barcelona, sem hann lék með í þrjú ár, en frá 2003 til 2011 var hann í herbúðum Arsenal.

„Aldrei að segja aldrei,“ sagði Fábregas eftir leikinn við Arsenal þegar hann var spurður að því hvort hann myndi fara frá Chelsea í sumar. „Það getur allt gerst en ég hef alltaf sagt að ég elska stuðningsmenn Chelsea. Þetta snýst bara um að fá stjórann til að skipta um skoðun,“ sagði Fábregas, sem var aðeins 15 sinnum í byrjunarliði Chelsea á leiktíðinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert