Ótrúlegt hjá Man. Utd árið 2017

Marcus Rashford er orðinn stjarna hjá Manchester United, rétt eins …
Marcus Rashford er orðinn stjarna hjá Manchester United, rétt eins og hann lét sig dreyma um. AFP

Á meðan ungir strákar eins og Marcus Rashford geta látið draum sinn rætast um að leika fyrir aðallið Manchester United þá er sams konar draumur ekki í boði fyrir stelpur því United er ekki með kvennalið, öfugt við flest stórlið sem United ber sig saman við.

Þetta er á meðal þess sem Rachel Brown-Finnis, fyrrverandi landsliðsmarkvörður Englands og markvörður ÍBV árið 2003, bendir á í pistli sínum á heimasíðu BBC.

„Mér finnst það ótrúlegt að árið 2017 skuli félag á borð við Manchester United ekki vera með kvennalið, og það sem verra er þá vill félagið ekki útskýra þessa stöðu almennilega,“ skrifar Brown-Finnis.

Hún bendir meðal annars á að flest stórlið í karlaboltanum séu nú komin með kvennalið eða að koma þeim á fót. Grannar United í Manchester City hafi til að mynda búið til öflugt kvennalið og að í raun séu United og Southampton einu félögin í úrvalsdeild karla sem ekki séu með kvennalið. Southampton hafi þó verið að stofna U21-lið en það sama sé ekki hægt að segja um United.

United-stuðningsmaðurinn varð að fara í Liverpool

United er reyndar með yngri flokka starf fyrir stelpur upp að 16 ára aldri. Þegar þeim aldri er náð þurfa stelpurnar að leita annað og Brown-Finnis tekur Emily Ramsey sem dæmi, en þessi U17-landsliðsmarkvörður Englands gekk í raðir Liverpool í sumar, eftir að hafa verið United-stuðningsmaður frá barnsaldri.

Brown-Finnis kveðst ekki skilja hvers vegna United sé ekki með kvennalið. Á það hafi verið bent í gegnum tíðina hvernig þetta vinsæla og heimsfræga félag gæti styrkt stöðu kvennafótbolta enn frekar, en Brown-Finnis segir að í dag sé United einfaldlega að sleppa auðveldu tækifæri til að stækka stuðningsmannahóp sinn enn frekar og sýna að konur skipti máli hjá félaginu.

BBC spurði United í síðustu viku út í það hvort til stæði að stofna aftur kvennalið, eftir að það var lagt niður árið 2005. Svarið var á þá leið að málið væri til skoðunar og að í augnablikinu væri verið að vinna að ítarlegri greiningu vegna þess. Brown-Finnis gefur hins vegar lítið fyrir þau svör enda segir hún að sams konar svar hafi ítrekað borist frá árinu 2013 og því virðist sem forráðamenn United vilji einfaldlega drepa málinu á dreif.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert