Leicester tilbúið að greiða Gylfa hærri laun

Gylfi Þór Sigurðsson.
Gylfi Þór Sigurðsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Leicester City hefur ekki gefist upp á að reyna að fá Gylfa Þór Sigurðsson til liðs við sig frá Swansea City.

Everton og Leicester hafa verið á höttunum eftir Gylfa en Swansea hefur hafnað 40 milljóna punda tilboði í hann frá félögunum. Swansea hefur sett 50 milljóna punda verðmiða á íslenska landsliðsmanninn, sem á þrjú ár eftir af samningi sínum við velska félagið.

Enska blaðið Daily Mail segir að Leicester sé reiðubúið að greiða Gylfa hærri laun en Everton er tilbúið að borga honum en í frétt blaðsins segir að Leicester muni greiða honum 125.000 pund í vikulaun en sú upphæð jafngildir um 17 milljónum íslenskra króna.

Enskir fjölmiðlar telja miklu meiri líkur á að Gylfi fari til Everton en hann ákvað að fara ekki með Swansea-liðinu í æfingaferð félagsins til Bandaríkjanna fyrir helgina þar sem hann treysti sér ekki með vegna óvissu um framtíð hans.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert