Ekki víst að Gylfi fari eftir allt

Hvað gerir Gylfi Þór Sigurðsson?
Hvað gerir Gylfi Þór Sigurðsson? mbl.is/Hanna

Paul Clement, þjálfari Gylfa Þórs Sigurðssonar og félaga hjá Swansea, hefur enn trú á að Gylfi verði áfram hjá félaginu, en hann hefur verið orðaður við félagsskipti til Everton að undanförnu. Gylfi fór ekki með liðinu í æfingaferð til Bandaríkjanna og bjuggust þá flestir við að hann væri að ganga frá félagsskiptum frá Swansea.

„Það er ekki ómögulegt að hann verði áfram,“ sagði Clement eftir 2:1 sigur Swansea á bandaríska liðinu Richmond Kickers í nótt. „Það væri best fyrir alla að framtíð hans verði ljós sem fyrst.“

Swansea hefur nú þegar hafnað 40 milljóna punda boði Leicester í Gylfa, en hann skoraði níu mörk og lagði upp 13 til viðbótar í ensku úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð. 

„Ég talaði við Gylfa fyrir tveimur dögum, samband okkar er mjög gott. Stjórnarformaðurinn og eigendurnir vita hvað mér finnst um þetta mál og við tölum um það á hverjum degi,“ sagði Clement. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert