Hefur Gylfi sagst vilja fara?

Gylfi Þór Sigurðsson.
Gylfi Þór Sigurðsson. mbl.is/Hanna Andrésdóttir

Blaðamaður Wales Online fullyrðir í nýlegri grein sinni um Gylfa Þór Sigurðsson að íslenski landsliðsmaðurinn sé búinn að gefa forráðamönnum Swansea til kynna að hann vilji fara frá félaginu.

Andrew Gwilym, íþróttafréttamaður blaðsins sem skrifar um Swansea, veltir vöngum yfir framtíð kappans og rýnir í það sem hann segir vera óþægilega stöðu fyrir alla aðila en Everton er það félag sem Gylfi Þór hefur helst verið orðaður við.

„Hann hefur gefið til kynna að hann vilji fara en eigendur Swansea binda þó enn vonir við honum snúist hugur,“ segir í greininni en Gwilym tekur þó fram að það sé mjög sjaldgæft að það gerist að leikmenn taki slíka u-beygju.

Talið er að tilboð upp á 45 milljónir punda auk aukagjalda sé fullnægjandi fyrir Swansea en Everton hefur ekki viljað ganga svo langt.

Eigendur Swansea standa hins vegar fastir á sinni kröfu enda hefur Gylfi verið um langa hríð besti leikmaður liðsins en hann skoraði níu mörk þess og átti 13 stoðsendingar á síðasta tímabili. Auk þess er Gylfi með þriggja ára samning við félagið. Enn fremur benda þeir á að í félagaskiptaglugga þar sem bakvörðurinn Kyle Walker hjá Tottenham fór til Manchester City á 50 milljónir punda sé Gylfi að minnsta kosti jafnmikils virði.

Í fréttinni kemur einnig fram að Gylfi Þór sitji ekki auðum höndum í Wales en hann æfir bæði einn og með U23 ára liði Swansea þessa dagana á æfingasvæði félagsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert