Dýrasta lið Englands á Laugardalsvelli?

Pep Guardiola knattspyrnustjóri Manchester City.
Pep Guardiola knattspyrnustjóri Manchester City. AFP

Útlit er fyrir að þeir sem koma á Laugardalsvöllinn 4. ágúst til að fylgjast með leik Manchester City og West Ham fái þar að sjá dýrasta enska knattspyrnulið sem sett hefur verið saman.

Manchester City gerði 23 ára gamlan Frakka, Benjamin Mendy, að dýrasta varnarmanni heims í gær þegar það keypti hann af Mónakó fyrir 52 milljónir punda.

Mendy leikur sem vinstri bakvörður og hefur aðeins spilað 4 landsleiki fyrir Frakklandi en vakti mikla athygli með meistaraliði Mónakó á síðasta tímabili.

Hann er nú kominn í 17. sætið yfir dýrustu knattspyrnumenn sögunnar og fór fram úr John Stone sem dýrasti varnarmaðurinn en City keypti hann einmitt af Everton fyrir ári á 50 milljónir punda.

Meðal þeirra sem eru fyrir ofan Mendy á listanum eru Kevin De Bruyne og Raheem Sterling en City keypti þá báða árið 2015 og greiddi 55 milljónir punda fyrir hvorn leikmann um sig.

Með kaupunum á Mendy hafa forráðamenn City keypt fimm leikmenn fyrir rúmar 200 milljónir punda í sumar. Auk Mendy eru það eftirtaldir:

• Kyle Walker, 27 ára gamall bakvörður Tottenham og enska landsliðsins, var keyptur fyrir 45 milljónir punda.

• Bernardo Silva, 22 ára gamall miðjumaður Mónakó og portúgalska landsliðsins, var keyptur fyrir 43,6 milljónir punda.

• Ederson, 23 ára gamall markvörður Benfica og brasilíska 23 ára landsliðsins, var keyptur fyrir 34,9 milljónir punda og er þar með orðinn dýrasti markvörður heims, í pundum talið.

• Danilo, 26 ára gamall hægri bakvörður Real Madrid og brasilíska landsliðsins, var keyptur fyrir 26,5 milljónir punda.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert