Viðræðum slitið?

Gylfi Þór Sigurðsson.
Gylfi Þór Sigurðsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sky Sports hélt því fram rétt í þessu að viðræðum milli Swansea og Everton um kaup á Gylfa Þór Sigurðssyni hafi verið slitið. 

Samkvæmt Sky er óvíst hvort þráðurinn verið tekinn upp að nýju en viðræður hafa staðið yfir meira eða minna í fimm vikur. 

Sky Sports er með lifandi frétt á heimasíðu sinni þar sem ýmsar fréttir varðandi leikmannamál í ensku knattspyrnunni eru birtar. Þar birtust þessi tíðindi en alla jafna er Sky Sports áreiðanlegur miðill þegar kemur að íþróttafréttum. 

Fréttir bárust af því á dögunum að Swansea hefði samþykkt að selja Gylfa fyrir 48 milljónir punda. Áður hafði félagið hafnað tilboði upp á 40 milljónir. Heimildamaður Sky telur að Everton hafi dregið tilboð sitt upp á 48 milljónir til baka. Samkvæmt honum vill Everton nú ekki greiða meira en 40 milljónir fyrir íslenska landsliðsmanninn. 

Samkvæmt Sky er ekki talið að launakröfur Gylfa verði vandamál fyrir Everton. Nú sé hins vegar hætta á að félögin nái ekki saman um kaupverðið og viðræður gætu þess vegna siglt í strand. 

Enska úrvalsdeildin hefst um næstu helgi og sú óvissa sem ríkir um framtíð Gylfa hlýtur að vera bagaleg fyrir Íþróttamann ársins 2016. Hann hefur ekki náð eins mörgum vináttuleikjum á undirbúningstímabilinu og mögulegt hefði verið þar sem hann var settur til hliðar þar sem talið var að hann væri á leið frá félaginu. 

Fari svo að Everton kaupi ekki Gylfa þá er spurning um eftirspurnina. Hún er líklega ekki mjög mikil ef Swansea vill halda sig við verðmiða upp á tæplega 50 milljónir punda. 

Uppfært kl 20: Sky dregur nú aðeins í land. Segjast hafa eftir öðrum heimildarmanni að viðræðunum hafi ekki verið slitið þótt illa gangi að ná saman. Frásagnir þessa tveggja heimildamanna Sky stangast því á. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert