Brottför Coutinho myndi valda uppþoti

Framtíð Philippe Coutinho hjá Liverpool er í mikilli óvissu.
Framtíð Philippe Coutinho hjá Liverpool er í mikilli óvissu. AFP

Jamie Carragher, sjónvarpsmaður hjá Skysports og fyrrum leikmaður Liverpool, telur að brasilíski sóknartengiliðurinn Philippe Coutinho muni ekki yfirgefa herbúðir Liverpool í sumar þrátt fyrir að hann hafi nýverið lagt fram beiðni um sölu frá félaginu. Fari svo að Coutinho fari muni hann taka þátt í uppþoti með stuðningsmönnum Liverpool.

„Það kom mér á óvart að hann hafi farið fram á sölu ef ég á að vera hreinskilinn. Ég taldi að Coutinho væri ekki þannig týpa að fara þessa leið, en flestir leikmenn hugsa um eigin hagsmuni einhvers staðar á ferlinum“ sagði Carragher í sjónvarpsþættinum Friday Night Football sem sýndur var á Skysports í kvöld.

Staðan svipuð og hjá Suárez

„Coutinho er í svipaðri stöðu og Luis Suárez var í á sínum tíma. Suárez lagði fram ósk um sölu líkt og Coutinho er að gera núna. Eigendur Liverpool fóru fram á það við Suárez að hann yrði áfram leikmaður Liverpool í 12 mánuði gegn því að hann fengi að ganga til liðs við Barcelona í kjölfarið,“ sagði Carrragher enn fremur.

„Ég sé það ekki enn að Liverpool leyfi Coutinho að fara frá Liverpool á þessum tímapunkti. Liverpool hefur ekki tíma til þess að bregðast almennilega við jafn stóru skarði og Coutinho myndi skilja eftir sig. Eins og ég hef áður sagt tel ég það verði uppþot á meðal stuðningsmanna ef Coutinho fer til Barcelona í þessum félagaskiptaglugga og ég stend við það. Ég myndi taka þátt í því uppþoti,“ sagði Carragher um mögulega brottför Coutinho. 

mbl.is