Þolinmæðisverk hjá Manchester City

Manchester City fer vel af stað í  ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu karla, en liðið vann 2:0-sigur þegar liðið mætti í fyrst umferð deildarinnar á American Express Community Stadium í dag.

Brighton sem er nýliði í deildinni á þessari leiktíð tókst að mynda þéttan varnarmúr sem hélt fram af í leiknum. Sergio Agüero fann hins vegar glufu á varnarmúr Brighton og kom Manchester City yfir á 70. mínútu leiksins.

Agüero batt endahnútinn á vel útfærða skyndisókn Manchester City sem hófst með því að Kevin de Bruyne vann boltann af Dale Stephens inni á miðsvæðinu. Kevin de Bruyne fann David Silva sem var fljótur að hugsa, lagði boltann í hlaupaleiðina fyrir Agüero sem skoraði með góðu skoti.

Agüero nartar í hælana á Brook

Agüero skoraði í dag sitt 170. mark fyrir Manchester City í öllum keppnum, en argentínski framherjinn nálgast óðfluga Eric Brook sem markahæsti leikmaðurinn í sögu Manchester City með 177 mörk.

Það var síðan sjálfsmark Lewis Dunk, varnarmanns Brighton, sem tvöfaldaði forystu Manchester City. Fernandinho sendi góða fyrirgjöf inná vítateig Brighton og Dunk varð fyrir því óláni að skalla boltann í eigið net.

Niðurstaðan afar sanngjarn tveggja marka sigur Manchester City sem þurfti að sýna mikla þolinmæði til þess að brjóta þétta og vel skipulagða vörn Brighton á bak aftur.

Brighton 0:2 Man. City opna loka
90. mín. Leik lokið Leik lokið með 2:0-sigri Manchester City.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert