Stafrófið skilur risana úr Manchester að eftir stórsigur United

Það gekk ekki mikið upp hjá Wayne Rooney og Gylfa …
Það gekk ekki mikið upp hjá Wayne Rooney og Gylfa Þór í dag. AFP

Manchester United vann 4:0 sigur á Gylfa Þór Sigurðssyni og félögum í Everton í síðari leik dagsins í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu.

Með stórsigrinum á Everton í kvöld tyllti United-liðið sér á toppinn í ensku úrvalsdeildinni en það er ekkert nema stafrófið sem gerir það að verkum að erkifjendurnir í Manchester City eru á toppnum. Bæði lið hafa 13 stig, unnið fjóra, gert eitt jafntefli, skorað 16 mörk og fengið tvö á sig.

Lengi vel virtist stefna í nauman sigur United. 80 mínútur liðu frá draumamarki Antonio Valencia á 4. mínútu er hann þrumaði knettinum á lofti utan teigs, þar til United skoraði á ný. 

Armeninn Henrik Mkhitaryan skoraði annað mark United á 84. mínútu eftir varnamistök hjá Ashely Williams. Við það opnuðust flóðgáttir en það var Romelu Lukaku sem skoraði þriðja mark United beint úr aukaspyrnu. Antony Martial bætti svo við fjórða markinu úr vítaspyrnu í uppbótartíma.

Íslenski landsliðsmaðurinn Gylfi Þór Sigurðsson náði ekki að setja mark sitt á leikinn í dag en hann spilaði allan tímann. Átti eitt skot á markið af stuttu færi en David de Gea varði skot hans. Everton-liðið leit þó betur út en 4:0 tap gefur til kynna en þrátt fyrir ágæta frammistöðu í dag hefur liðið ekki skorað í þremur leikjum í röð.

Everton er í 18. sæti með 4 stig og óhætt að segja að smá pressa sé strax komin á Ronald Koeman í stjórastöðunni en nú þegar hefur einn samlandi hans, Frank de Boer, verið rekinn úr starfi.

Marouane Fellaini og Henrikh Mkhitaryan fagna í dag.
Marouane Fellaini og Henrikh Mkhitaryan fagna í dag. AFP
Man. Utd 4:0 Everton opna loka
90. mín. Romelu Lukaku (Man. Utd) skorar 3:0! Skorar með skoti beint úr aukaspyrnu.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert