Batshuayi með þrennu

Marcus Rashford að skora gegn Burton í kvöld.
Marcus Rashford að skora gegn Burton í kvöld. AFP

Segja má að úrslitin hafi verið eftir bókinni í leikjunum fimm sem fóru fram í 32-liða úrslitum ensku deildabikarkeppninnar í knattspyrnu í kvöld.

Chelsea og Manchester United unnu bæði örugga sigra. Chelsea burstaði Nottingham Forest, 5:1, á Stamford Bridge þar sem Michy Batshuayi skoraði þrennu fyrir Englandsmeistarana.

Manchester United lagði Burton Albion, 4:1, á Old Trafford. Marcus Rashford skoraði tvö mörk og þeir Jessie Lingard og Anthony Martial gerðu sitt markið hvor.

Arsenal og Manchester City innbyrtu nauma sigra. Arsenal hafði betur, 1:0, gegn Doncaster þar sem Theo Walcott skoraði sigurmarkið. City vann 2:1 útsigur á WBA þar sem Leroy Sane skoraði bæði mörk Manchester-liðsins.

Gylfi Þór Sigurðsson hvíldi sig á bekknum allan tímann í liði Everton sem vann langþráðan sigur og skoraði eftir að hafa tapað fjórum leikjum í röð án þess að skora. Dominic Calvert-Lewin skoraði tvö fyrstu mörkin og varamaðurinn Oumar Niasse bætti við þriðja markinu.

Úrslitin í leikjunum:

Arsenal - Doncaster, 1:0
Chelsea - Nottingham Forest, 5:1
Everton - Sunderland, 3:0
Manchester United - Burton, 4:1
WBA - Manchester City, 1:2

Bein lýsing:

20.48 MARK! Burton var að minnka muninn í uppbótartíma með nánast síðustu spyrnu leiksins. Markaskorarinn var Lloyd Dyer.

20.35 MARK! Nottingham Forest tókst að klóra í bakkann á loksekúndum gegn Chelsea. Tendayi Darikwa skoraði markið.

20.34 MARK! Manchester City var ekki lengi að komast aftur yfir gegn WBA. Aftur var það Leroy Sane sem skoraði fyrir City þegar um stundarfjórðungur er til leiksloka.

20.32 STÖNGIN! Doncaster var nálægt því að jafna metin gegn Arsenal en boltinn small í stönginni.

20.29 MARK! WBA var að jafna metin í 1:1 á móti Manchester City með marki frá Claudio Yacob.

20.28 MARK!! Þrennan er fullkomin hjá Michy Batshuayi og Chelsea er komið í 5:0.

20.25 MARK! Sigurinn er í höfn hjá Everton því varamaðurinn Oumar Niasse var að koma liðinu í 3:0.

20.22 Það er ljóst að Gylfi Þór Sigurðsson mætir ferskur til leiks gegn Bournemouth um næstu helgi. Hann kemur ekki inn á í kvöld því Everton er búið að nota alla þrjá varamenn sína.

20.20 Úrslitin eru ekki ráðin á Emirates. Doncaster er enn þá vel inni í leiknum gegn Arsenal en heimamenn eru 1:0 yfir.

20.16 MARK! Manchester United er komið í 4:0 gegn B-deildarlið Burton. Anthony Martial skoraði fjórða markið af stuttu færi.

20.01 Luke Shaw er mættur til leiks á Old Trafford. Bakvörðurinn sem er búinn að vera lengi frá vegna meiðsla kom inná fyrir Juam Mata.

19.57 MARK! Chelsea heldur áfram að salla inn mörkum. Michy Batshuayi var að skora sitt annað mark og staðan er orðin 4:0 á Brúnni.

19.52 MARK! Everton er komið í vænlega stöðu en liðið var að komast í 2:0 gegn Sunderland. Aftur var markaskorarinn Dominic Calvert-Lewin.

19.46 Hálfleikur á Old Trafford. Manchester United með 3:0 forystu gegn Burton.

19.45 Það er kominn hálfleikur í leik WBA og Manchester City þar sem gestirnir úr City eru 1:0 yfir.

19.36 MARK!! Manchester United var að komast í 3:0. Jesse Lingaard skaut boltanum í varnarmann og inn. Spurning hvort Lingard fái markið skráð á sig.

19.33 Búið að flauta til hálfleiks á Emirates Stadium þar sem Arsenal er 1:0 yfir.

19.32 Hálfleikur í leik Chelsea og Nottingham Forest þar sem heimamenn eru yfir, 3:0.

19.31 Það er kominn hálfleikur á Goodison Park þar sem Everton er 1:0 yfir gegn Sunderland.

19.26 Minnstu munaði að Burton tækist að jafna metin á Old Trafford en Sergio Romero markvörður Manchester-liðsins bjargaði meistaralega.

19.25 MARK! Dagskránni er lokið á Stamford Bridge. Charly Musonda var að koma Englandsmeisturunum í 3:0.

19.23 MARK!! Jæja loksins er Everton búið að skora mark. Hinn ungi og efnilegi Dominic Calvert-Lewin var að koma Everton í 1:0 gegn Sunderland.

19.17 MARK!! Ungstirnið Marcus Rashford var að koma Manchester United í 2:0. Skoraði með góðu skoti utan teigs í stöng og inn.

19.12 MARK! Það er komið mark á Emirates Stadium en Theo Walcott var að koma Arsenal yfir gegn Doncaster.

19.09 Everton hefur ráðið ferðinni gegn Sundeland en staðan er enn markalaus þar sem Gylfi Þór Sigurðsson situr á bekknum.

19.06 MARK!! Manchester United er komið í 1:0 gegn Burton á Old Trafford með marki frá Marcus Rashford.

Leroy Sane fagnar marki sínu í kvöld.
Leroy Sane fagnar marki sínu í kvöld. AFP

19.05 MARK!! Manchester City var ekki lengi að komast yfir gegn WBA. Leroy Sane skoraði markið á 3. mínútu leiksins.

19.03 MARK!! Chelsea er í góðum málum. Michy Batshuai var að koma liðinu í 2:0.

18.56 MARK!! Chelsea er komið yfir á Brúnni með marki frá Kenedy.

18.45 Búið er flauta til leiks í þremur leikjum af fimm.

Fyrir leikina:

* Gylfi Þór Sigurðsson er á meðal varamanna í kvöld en enginn Wayne Rooney er í leikmannahópi Everton. Byrjunarlið Everton: Stekelenburg, Kenny, Williams, Keane, Holgate, Besic, Davies, Klaassen, Vlasic, Calvert-Lewin, Sandro.

* José Mourinho gerir töluverðar breytingar á liði Manchester United en liðið í kvöld eru engu að síður vel skipað. Lið Man.Utd: Romero, Darmian, Smalling, Lindelof, Blind, Carrick, Herrera, Lingard, Mata, Martial, Rashford.

* Byrjunarlið Arsenal: Ospina, Chambers, Mertesacker, Holding, Nelson, Wilshere, Elneny, Maitland-Niles, Walcott, Sanchez, Giroud.

* Eden Hazard er í fyrsta sinn í byrjunarliði Chelsea á leiktíðinni en Antonio Conte, stjóri Chelsea gerir níu breytingar á liði sínu. Byrjunarlið Chelsea: Caballero, Rudiger, Christensen, Cahill, Zappacosta, Bakayoko, Fabregas, Kenedy, Musonda, Batshuayi, Hazard.

* Byrjunarlið Manchester City: Bravo, Danilo, Gundogan, Stones, Mangala, Yaya Toure, Delph, Bernardo, Sterling, Sane, Jesus.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert