Conte reyndi að komast hjá spurningum

Antonio Conte ásamt Diego Costa.
Antonio Conte ásamt Diego Costa. AFP

Antonio Conte, knattspyrnustjóri Chelsea, var þráspurður á fréttamannafundi í dag um Diego Costa sem virðist loks vera að losna úr prísund sinni og ganga í raðir Atlético Madrid á ný.

„Við viljum þakka honum fyrir framlag hans á tíma sínum hjá félaginu og óskum honum alls hins besta í framtíðinni,“ sagði Conte en fréttamenn héldu áfram að pumpa og spurðu um þeirra samband sem talið er afar erfitt.

„Það skiptir ekki máli núna, ég hef ekki áhuga á að tala áfram um þetta mál. Ég er að vinna með núverandi leikmönnum mínum og vil halda því áfram. Þetta skiptir ekki máli,“ sagði Conte, en var ekki leyft að komast upp með að sleppa svo auðveldlega.

„Ég vil ekki tala um fortíðina. Fyrir alla leikmenn og þjálfara þá er fortíðin eins og hún er. Við þurfum að lifa í núinu og vinna fyrir framtíðina. Við unnum deildina saman á síðasta tímabili og þökkum honum fyrir framlagið og hans tíma hjá Chelsea,“ sagði Conte.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert