Tileinkaði veikri móður markið

Jón Daði Böðvarsson.
Jón Daði Böðvarsson. mbl.is/Golli

Jón Daði Böðvarsson landsliðsmaður í knattspyrnu tileinkaði móður sinni markið sem hann skoraði fyrir Reading gegn Hull í ensku B-deildinni í knattspyrnu í gær en hann tryggði liðinu þar 1:1 jafntefli.

„Ég hafði tíma þegar ég fékk stungusendinguna og ákvað að halda jafnvæginu og hitta boltann eins vel og mögulegt væri. Ég datt um leið og ég skaut og sá því ekki þegar boltinn fór í netið en heyrði áhorfendur fagna svo tilfinningin var góð.

Ég vil tileinka mömmu þetta mark - hún hefur barist við veikindi heima svo ég helga henni þetta mark," sagði Jón Daði í viðtali á vef Reading.

„Það var gott að skora aftur eftir smá hlé og sérstaklega á heimavellinum. Það hefði verið skemmtilegra að fá öll þrjú stigin en við fengum þó stigið," sagði Jón Daði.

Þetta  var annað mark Jóns Daða í fyrstu átta leikjum Reading í deildinni á þessu tímabili en hann missti af þremur leikjanna vegna meiðsla. Liðið er í 18. sæti af 24 liðum en á leik til góða á flest hinna liðanna og er þremur stigum frá 11. sætinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert