Fallegar aðstæður á Anfield

José Mourinho mætir Jürgen Klopp og lærisveinum hans í Liverpool …
José Mourinho mætir Jürgen Klopp og lærisveinum hans í Liverpool í dag á Anfield. AFP

„Það kemur á óvart að þú skulir tala um þetta sem eitthvað neikvætt. Það kemur enn meira á óvart þegar ég heyri fyrrverandi leikmenn tala um [rafmagnað] andrúmsloft eins og það sé eitthvað slæmt eða menn eigi að hafa áhyggjur af. Þetta hvetur okkur áfram,“ sagði José Mourinho, knattspyrnustjóri Manchester United, á blaðamannafundi í gær fyrir leik liðsins gegn Liverpool á Anfield en leikurinn hefst kl. 11:30 í dag.

Mourinho vill hafa góða stemningu á leikjum og segir leikmenn og þrífast á henni. Ekkert fútt sé í því að spila á tómum leikvöngum og tók sem dæmi leikinn sem Barcelona spilaði gegn Las Palmas í spænsku deildinni á dögunum þar sem leikvangurinn var tómur af öryggisástæðum vegna þeirrar ólgu sem ríkti í borginn er íbúar þar kusu um sjálfstæði Katalóníu.

„Við kvörtum þegar við sjáum ekki ástríðu í fólki. […] Við vitum að það er mikill fjandskapur á milli þessara stuðnningsmanna þessara félaga sögulega séð. En þetta er það sem við viljum. En við erum mjög ánægðir með að fá tækifæri til þess á ferlinum að spila við þessar fallegu aðstæður. Það er fallegt að spila á Anfield. Fallegt,“ sagði José Mourinho.

Manchester United er í 2. sæti í deildinni með 19 stig, jafn mörg og Manchester City í toppsætinu sem hefur betur á markamun. Liverpool hefur 12 stig í 7. sæti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert