Jóhann Berg stríðir Englendingum

Jóhann Berg Guðmundsson
Jóhann Berg Guðmundsson Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Jóhann Berg Guðmundsson, landsliðsmaður í knattspyrnu, lætur Englendinga finna til tevatnsins í viðtali á Sky Sports í dag og segir Íslendinga vel geta unnið England aftur.

Jóhann Berg var byrjunarliðinu í öllum leikjum íslenska landsliðsins á EM í Frakklandi í fyrra þar sem Ísland vann England í 16-liða úrslitum keppninnar og vonast til þess að mæta þeim á ný í Rússlandi á HM á næsta ári.

„Vonandi getum við fengið þá í riðlinum,” sagði Jóhann Berg og minntist svo leiksins í Nice þar sem Ísland vann 2:1.

„Þetta var frábær leikur hjá okkur og ég trúi því að við getum unnið þá aftur,“ sagði Jóhann Berg.

„Pressan er miklu meiri á Englandi. Ég skil það vel. Þeir eru með dýrari leikmenn en við og hafa ekki verið að gera eins vel og þeir ættu að gera í langan tíma,“ sagði Jóhann Berg.

„Bæði fjölmiðlar og [enska] þjóðin vill meira. Þeir eru sífellt á minnast á „Íslands-niðurlæginguna“ í fjölmiðlum. Sem betur fer fyrir okkur er engin pressa. Ísland er miklu minni þjóð - líka á fótboltalegan mælikvarða,“ sagði Jóhann Berg.

Jóhann Berg verður í eldlínunni með Burnley í ensku úrvalsdeildinni á eftir sem mætir West Ham kl. 14:00 á Turf Moor.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert