Rooney jafnaði á 90. mínútu

Wayne Rooney hleypur með boltann aftur á miðjuna eftir að …
Wayne Rooney hleypur með boltann aftur á miðjuna eftir að hafa jafnað metin í dag. AFP

Wayne Rooney tryggði Everton eitt stig og veitti Ronald Koeman mögulega líflínu sem stjóri liðsins er Everton gerði 1:1 jafntefli við Brighton á útivelli. Rooney skoraði úr vítaspyrnu á 90. mínútu leiksins og jafnaði metin. Gylfi Þór Sigurðsson lék allan leikinn í liði Everton og hóf leik líkt og margir hafa beðið eftir fyrir aftan Wayne Roney sem lék sem framherji Everton stærstan hluta leiksins.

Fyrri hálfleikurinn var ekki mikið fyrir augað og ekkert almennilegt færi leit dagsins ljós. Helsta ógn Everton var Gylfi Þór er hann tók föst leikatriði. Markalaust var í hálfleik

Á 79. mínútu var brotið á Gylfa Þór innan teigs en það var Pascal Gross sem togaði augljóslega í Gylfa. Ekkert var hins vegar dæmt við litla hrifningu íslenska landsliðsmannsins.

Aðeins þremur mínútum síðar skoraði Anthony Knockaert fyrsta markið á 82. mínútu leiksins með skoti innan teigs eftir að Jose Izquierdo hafði látið verja frá sér. Everton-menn voru seinir að átta sig - náðu ekki að hreinsa og Knockaert þrumaði knettinum í netið.

Everton-menn gáfust hins vegar ekki upp og á 89. mínútu leiksins braut Bruno Saltor, fyrirliði Brighton, glórulaust af sér innan teigs eftir aukaspyrnu Gylfa Þórs inn á teig. Saltor fékk gult spjald en hefði réttilega átt að fá rautt spjald fyrir olnbogaskot þar sem boltinn var víðsfjarri.

Wayne Rooney var fljótur að taka stefnuna í átt að boltanum er vítið var dæmt og skoraði örugglega úr spyrnunni.

Everton hefur 8 stig eftir 8 leiki í ensku úrvalsdeildinni og áfram er mikil pressa á Ronald Koeman stjóra liðsins. Brighton hefur jafn mörg stig.

Gylfi Þór skallar boltann í leiknum í dag.
Gylfi Þór skallar boltann í leiknum í dag. AFP
Brighton 1:1 Everton opna loka
90. mín. Wayne Rooney (Everton) skorar úr víti 1:1. Rooney skorar örugglega úr vítinu.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert