„Stór vika framundan“

Gylfi Þór Sigurðsson.
Gylfi Þór Sigurðsson. AFP

Landsliðsmaðurinn Gylfi Þór Sigurðsson verður í eldlínunni með Everton er liðið sækir Brighton heim í fyrri leik dagsins í ensku úrvalsdeildinni.

Ekki hefur gengið nægilega vel hjá Gylfa Þór og félögum að næla sér í stig í deildinni en liðið hefur aðeins sjö stig eftir sjö leiki og er í 17. sæti.

Að vísu hefur liðið átt geysilega erfitt leikjaprógramm í upphafi móts en liðið er nú þegar búið að mæta Manchester City, Chelsea, Tottenham og Manchester United.

Ekki tekur mikið betra við en liðið á fyrir höndum leik gegn Brighton í dag, mætir Lyon í Evrópudeildinni í miðri viku og fær svo Arsenal í heimsókn eftir viku.

„Það er stór vika framundan,” sagði Gylfi Þór við heimasíðu Everton.

„Við þurfum að fara að vinna leiki á ný. Þetta var svekkjandi gegn Burnley í síðustu umferð,“ sagði Gylfi en liðið tapaði þá 1:0.

Spurður hvort verkefni Gylfa með íslenska landsliðinu trufli hann eitthvað segir Gylfi svo ekki vera en hann skoraði mark og lagði upp annað í sigri Íslands á Kósóvó sem tryggði landsliðinu snæti á HM í Rússlandi á næsta ári.

„Þegar allt kemur til alls er þetta nú bara fótbolti, hvort sem þú ert að spila fyrir landið þitt eða félagsliðið.  Ég held að það sé nokkuð lítið mál að færa sig [frá landsliðsfótbolta] yfir í félagsliðafótbolta. Við erum vanir því og ég trúi því að allir leikmenn verðir klárir í slaginn á sunnudag,” sagði Gylfi Þór í gær.

Gylfi Þór var spurður hvernig tilfinningin væri að vera á leið með Íslandi á HM.

„Þetta er eitthvað sem allir hafa verið að bíða eftir að gerist í íslenskum fótbolta. Að fara í alvörunni á HM. Það er að fara að gerast og tilfinningin er frábær. Ég held að allir leikmennirnir og íslenska þjóðin sé mjög stolt af því. Við hlökkum til að fara til Rússlands,“ sagði Gylfi.

„Þetta er annað stórmótið í röð núna. Það er magnað afrek hjá þjóðinni,“ sagði Gylfii.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert