Gylfi ekki ánægður með eigin frammistöðu

Gylfi Þór Sigurðsson í leik með Everton.
Gylfi Þór Sigurðsson í leik með Everton. AFP

Gylfi Þór Sigurðsson, landsliðsmaður í knattspyrnu, hefur ekki náð sér á strik frekar en aðrir leikmenn Everton á leiktíðinni. Hann gekk í raðir félagsins frá Swansea á 45 milljónir punda í sumar og er hann dýrasti leikmaðurinn í sögu félagsins. 

Honum hefur ekki tekist að skora deildarmark fyrir liðið og segist hann ekki ánægður með eigin frammistöðu með Everton til þessa. Liðið er í 16. sæti með aðeins tvo sigra eftir átta leiki. 

„Auðvitað er ég ekki ánægður með eigin frammistöðu til þessa og það hefur gengið illa hjá liðinu. Við erum ekki að ná okkar besta fram," sagði Gylfi í samtali við Express. 

Everton gerði 1:1-jafntefli við Brighton á útivelli í síðustu umferð. Wayne Rooney skoraði jöfnunarmarkið úr vítaspyrnu í blálokin. 

„Það er ekki langt þangað til við förum að ná í úrslit. Ef við náum að vinna 2-3 leiki myndi sjálfstraustið í liðinu aukast. Stundum er það eina sem þarf til. Vonandi getur jöfnunarmarkið gegn Brighton í síðustu umferð hjálpað okkur í að gera betur," sagði Gylfi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert