„Ótrúleg vika“

Jóhann Berg Guðmundsson.
Jóhann Berg Guðmundsson. AFP

„Þetta er búin að vera ótrúleg vika,“ segir Jóhann Berg Guðmundsson í viðtali á heimasíðu Burnley en landsliðsmaðurinn lagði upp jöfnunarmark sinna manna gegn West Ham á laugardaginn.

„Ég var ánægður að leggja mitt af mörkum. Þegar ég kom inná þá reyndi ég að breyta hlutunum. Stjórinn sagði mér að taka bakvörðinn á og koma með fyrirgjafir og ég var ánægður að leggja upp mark,“ sagði Jóhann Berg en Ný-Sjálendingurinn Chris Woods jafnaði metin undir lokin með laglegu skallamarki eftir frábæra fyrirgjöf frá Jóhanni Berg, sem skoraði bæði gegn Tyrkjum og Kosóvum í undankeppni HM á dögunum.

Jóhann Berg og félagar eru taplausir í síðustu sex leikjum sínum í deildinni en á laugardaginn bíður Burnley afar erfitt verkefni þegar þeir sækja topplið Manchester City heim en City-liðið hefur verið á gríðarlegri siglingu og vann Stoke um nýliðna helgi, 7:2.

„Við höfum náð góðum úrslitum eins og á móti Chelsea, Tottenham og Liverpool svo vonandi getum við gert það sama um næstu helgi. Við höfum byrjað tímabilið vel og frammistaða okkar á útivelli hefur verið mjög gott,“ segir Jóhann Berg en Burnley er í 7. sæti deildarinnar með 13 stig eftir átta leiki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert