Aron sagður of dýr fyrir Leeds

Aron Jóhannsson hefur enga ástæðu til að gleðjast yfir stöðu …
Aron Jóhannsson hefur enga ástæðu til að gleðjast yfir stöðu sinni hjá Werder Bremen en hann hefur aðeins leikið 3 mínútur í þýsku 1. deildinni á þessari leiktíð. Ljósmynd/werder.de

Leeds United hafði áhuga á að krækja í framherjann Aron Jóhannsson í sumar en hann hélt kyrru fyrir hjá Werder Bremen í Þýskalandi þar sem hann hefur lítið sem ekkert spilað á þessari leiktíð.

Aron virtist á förum frá Werder í sumar en ekkert varð af því og samkvæmt þýska blaðinu Kreiszeitung, sem fylgist vel með hjá Werder Bremen, var það bæði vegna þess að félagið vildi fá hátt verð fyrir kappann og vegna þess að Aron er sjálfur með góðar tekjur hjá félaginu.

Werder Bremen keypti Aron fyrir 4,5 milljónir evra frá AZ Alkmaar í Hollandi sumarið 2015 og vill fá sem stærstan hluta þess kaupverðs við sölu á honum, samkvæmt Kreiszeitung. Þetta hafi stöðvað Leeds sem hafi þess í stað fengið Pierre-Michel Lasogga frá Hamburg.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert