Gylfaleysi ekki lausnin

Gylfi Þór Sigurðsson og Wayne Rooney hafa verið í vandræðum.
Gylfi Þór Sigurðsson og Wayne Rooney hafa verið í vandræðum. AFP

Martröð Everton virðist engan enda ætla að taka en liðið er áfram í fallsæti ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu eftir 2:0 tap gegn Leicester í 10. umferðinni í gær. David Unsworth stýrði Everton í fyrsta sinn í deildarleik, eftir að hafa verið ráðinn til bráðabirgða vegna brottreksturs Ronalds Koeman, og hann brá á það ráð að taka dýrasta leikmanninn í sögu félagsins, Gylfa Þór Sigurðsson, út úr byrjunarliðinu. Það bar engan árangur.

Wayne Rooney spilaði í uppáhaldsstöðu Gylfa sem fremsti miðjumaður, en Unsworth tjáði í liðinni viku þá skoðun sína að hann teldi ekki pláss fyrir Rooney, Gylfa og Davy Klaassen saman í byrjunarliðinu þar sem þeir væru of líkir leikmenn. Það var einmitt Rooney sem vék þegar Gylfi kom inn á sem varamaður í gær, á 73. mínútu, að því er virtist við afar litla hrifningu Rooney sem gekk af velli án þess að svo mikið sem koma nálægt Gylfa. Gylfi átti 2-3 hættulegar hornspyrnur en náði annars lítið að láta til sín taka, ekki frekar en aðrir í liði Everton.

Vandræði Everton snúa ekki síst að varnarleiknum en aðeins Crystal Palace hefur fengið á sig fleiri mörk það sem af er leiktíð. Ljóst er að mikið verk bíður nýs knattspyrnustjóra, hvenær sem hann verður ráðinn, og að frammistaðan í gær bar þess öll merki að Unsworth væri ekki svarið við erfiðri stöðu Everton-manna.

Sjá nánar í íþróttablaði Morgunblaðsins sem kom út í morgun.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert