Gagnrýnir Everton fyrir seinagang

Gylfi Þór Sigurðsson og Wayne Rooney eru í leit að …
Gylfi Þór Sigurðsson og Wayne Rooney eru í leit að stjóra. AFP

Enn eru Gylfi Þór Sigurðsson og félagar í Everton ekki komnir með nýjan knattspyrnustjóra eftir að Ronald Koeman var rekinn í síðasta mánuði.

Einn af þeim sem orðaður var við starfið er Sam Allardyce sem hefur marga fjöruna sopið á Englandi, en hann hefur nú dregið sig út úr kapphlaupinu um starfið og kennir forráðamönnum félagsins um. Þeir séu of hikandi í leit sinni að nýjum stjóra.

„Þetta fór því miður ekki eins og ég vildi. Eftir að svona langur tími leið án þess að tekin sé ákvörðun þá þurfti ég sjálfur að taka ákvörðun. Þetta hefði verið frábært starf, en tilfinningin í kringum þetta var ekki góð,“ sagði Allardyce.

Ásamt honum var Sean Dyche, stjóri Burnley, sagður á óskalistanum. Everton falaðist svo eftir Marco Silva, stjóra Watford, en fékk ekki leyfi til þess. David Unsworth, sem tók tímabundið við, mun því stýra liðinu áfram.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert