Enska úrvalsdeildin af stað með stórleik

Harry Kane og Dele Alli verða í eldlínunni gegn Arsenal …
Harry Kane og Dele Alli verða í eldlínunni gegn Arsenal á morgun. AFP

Stuðningsmenn ensku knattspyrnunnar geta tekið gleði sína á ný en eftir hálfs mánaðar landsleikjahlé byrjar ballið á nýjan leik.

Og 12. umferðin hefst með látum því í hádeginu á morgun mætast erkifjendurnir úr norður London, Arsenal og Tottenham á Emirates Stadium. Tottenham er í 2.-3. sæti deildarinnar með 23 stig en Arsenal er með 19 stig í sjötta sæti deildarinnar.

„Tottenham er með gott lið en við erum með gæðin til að vinna þennan leik og það ætlum við að gera. Við erum sterkir á heimavelli og styrkur okkar á heimavelli mun ráða miklu hvar við endum í lok leiktíðarinnar,“ segir Arsene Wenger knattspyrnustjóri Arsenal.

Arsenal hefur ekki tekist að vinna granna sína í síðustu sex viðureignum liðanna í ensku úrvalsdeildinni. Tottenham hefur hins vegar aðeins náð að vinna tvo leiki á heimavelli Arsenal í síðustu 32 leikjum í deildinni. Tottenham vann 3:1 sigur á Highbury árið 1993 og 3:2 á Emirates árið 2010.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert