Mun verða einn af bestu leikmönnum félagsins

Gylfi Þór Sigurðsson í leik með Everton.
Gylfi Þór Sigurðsson í leik með Everton. AFP

Pat Niven, fyrrverandi leikmaður Everton, hefur tröllatrú á Gylfa Þór Sigurðssyni og telur að hann eigi eftir að skipa sér í hóp með bestu leikmönnum félagsins frá upphafi.

Everton keypti Gylfa í sumar fyrir metfé eða 45 milljónir punda en Gylfi hefur ekki náð sér á strik frekar en aðrir leikmenn Everton. Við miklu var búist af liðinu á leiktíðinni þar sem félagið fjárfesti í mörgum leikmönnum en Everton-liðið hefur verið í basli og er í 15. sæti deildarinnar.

Gylfi hefur enn ekki náð að skora í þeim 10 leikjum sem hann hefur spilað með Everton í deildinni en eina mark hans fyrir félagið kom gegn Hadjuk Split í umspili um sæti í riðlakeppni Evrópudeildarinnar. Þar hefur Everton gengið illa og á ekki möguleika á að komast áfram.

„Ég var einn af þeim sem sögðu þegar byrjað var að tala um það fé sem Everton væri tilbúið að greiða fyrir Gylfa Sigurðsson að ég myndi gera þann samning á hverjum degi í vikunni. Ég sá hann standa sig frábærlega á síðasta tímabili og hann var einn af sex eða sjö bestu leikmönnum deildarinnar,“ segir Nevin á vef Everton.

„En Gylfi þarf að finna einhvern í teignum til að taka á móti sendingum hans svo að liðið nái því að fá það besta frá honum. En ekki hafa áhyggjur. Með tímanum mun hann verða einn af bestu leikmönnum félagsins sem stuðningsmenn Everton munu elska.“

Gylfi Þór og félagar hans verða í eldlínunni á morgun en þá sækja þeir botnliði Crystal Palace heim.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert