Einn af okkar erfiðustu leikjum

Pep Guardiola.
Pep Guardiola. AFP

Kyle Walker, bakvörður toppliðs Manchester City í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu, stefnir hátt með liðinu á næstu árum og er ánægður með það að verið sé að bera liðið saman við Barcelona-liðið sem spilaði undir stjórn Pep Guardiola, núverandi stjóra City, og náði þar mögnuðum árangri.

Guardiola tók við Barcelona árið 2008 og vann með liðinu á fjórum árum Meistaradeild Evrópu tvisvar, spænsku deildina þrisvar og spænska bikarinn tvisvar. Liðið vann auk þess Ofurbikar Evrópu og heimsmeistarakeppni félagsliða.

„Það er gott að fá þennan samanburð þar sem þetta lið [Barcelona] var rosalegt. Ef við komumst eitthvað nálægt árangri Barcelona undir hans stjórn yrði það frábært,“ sagði Walker sem er stórhuga og vill jafnvel meira en það.

„En við ættum ekki að sætta okkur við það. Við viljum meira vegna þess að við höfum leikmennina til þess og stjórann. Vonandi getum við blandað þessu öllu saman og gert eitthvað sérstakt,“ sagði Walker við The Guardian en lið hans mætir Englandsmeisturunum frá 2016, Leicester kl. 15:00 í dag.

Kyle Walker.
Kyle Walker. AFP

Manchester City er strax komið með átta stiga forskot á Manchester United og er á toppi ensku úrvalsdeildarinnar en Guardiola segir að liðið geti enn bætt sig þrátt fyrir 10 sigra og eitt jafntefli í fyrstu 11 leikjunum.

„Ég er hérna til þess að láta liðið spila betur en það gerði í gær. Við erum að spila vel og ég er mjög ánægður með úrslitin en lið getur alltaf bætt stig og það eru atriði sem hægt er að bæta,“ sagði Guardiola sem segist fara yfir einstaklingsmistök eftir hvern einasta leik jafnvel þó að um örugga sigra væri að ræða.

„Það hjálpar við að halda leikmönnunum á tánum og er góð vörn gegn of mikilli sjálfumgleði,“ sagði Guardiola en liðið tapaði fyrir Leicester á síðustu leiktíð, 4:2, fyrir um ári.

„Það var einn af okkar verstu dögum,“ sagði Guardiola. „Það er svo flókið að ráða í spil Leicester. Í þessum leik spilaði liðið eins og þegar þeir urðu meistarar. Refsuðu fyrir hver einustu mistök, voru snöggir fram og afgreiddu færin vel,“ sagði Guardiola en þá var Ítalinn Claudio Ranieri enn við stjórnvölinn. Síðan þá hefur liðið rekið eftirmann Ítalans, Craig Shakespeare, og ráðið Claude Puel.

Jamie Vardy er eflaust einn leikmanna Leicester sem Guardiola óttast.
Jamie Vardy er eflaust einn leikmanna Leicester sem Guardiola óttast. AFP

Þrátt fyrir stjóraskiptin telur Guardiola að mikil ógn steðji af Leicester-liðinu þar sem liðið hafi marga hæfileikaríka leikmenn. „Þetta verður einn af okkar erfiðustu leikjum,“ sagði Guardiola.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert