Salah með tvö og markahæstur - martröð Everton heldur áfram

Mohamed Salah er orðinn markahæstur í ensku úrvalsdeildinni.
Mohamed Salah er orðinn markahæstur í ensku úrvalsdeildinni. AFP

Mohamed Salah hélt uppteknum hætti í liði Liverpool og skoraði tvö mörk í 3:0 sigri liðsins á Southampton í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu. Fimm aðrir leikir fóru fram á sama tíma þar sem Gylfi Þór Sigurðsson var í eldlínunni með Everton og lagði upp sitt fyrsta mark í deildinni á leiktíðinni.

Salah orðinn markahæstur

Mohamed Salah er orðinn markahæsti leikmaður ensku úrvalsdeildarinnar en hann skoraði mörk númer átta og níu í dag í sigri Liverpool. Salah hefur auk þess skorað fimm mörk í Meistaradeild Evrópu og er því samtals kominn með 14 mörk fyrir Liverpool á leiktíðinni.

Salah kom Liverpool yfir á 31. mínútu með frábæru skoti fyrir utan teig í fjærhornið. Hann var síðan aftur á ferðinnni 10 mínútum síðar er hann afgreiddi knöttinn í netið eftir að hafa sloppið í gegnum vörn dýrlingana en stoðsendinguna átti Philippe Coutinho. Þriðja mark Liverpool skoraði Coutinho sjálfur er hann fylgdi á eftir skoti Roberto Firmino.

Philippe Coutinho skoraði eitt mark fyrir Liverpool í dag og …
Philippe Coutinho skoraði eitt mark fyrir Liverpool í dag og lagði upp annað. AFP

Liverpool hefur 22 stig í 5. sæti og hefur unnið fjóra leiki í röð í öllum keppnum. Southampton hefur 13 stig í 13. sæti.

Áfram vesen hjá Gylfa

Það byrjaði ekki vel hjá Gylfa Þór og félögum hjá Everton sem lentu undir eftir aðeins mínútuleik gegn botnliði Crystal Palace er James McArthur skoraði. Leighton Baines jafnaði metin úr vítaspyrnu aðeins fimm mínútum síðar en Wilfried Zaha kom Palace á ný yfir á 35. mínútu. Rétt fyrir hálfleik lagði Gylfi Þór hins vegar upp sitt fyrsta mark í deildinni á tímabilinu er hann renndi knettinum á Oumar Niasse eftir að Palace missti boltann á slæmum stað á miðsvæðinu. Þannig var staðan í hálfleik og þannig endaði leikurinn. Vandræði Everton halda því áfram en liðið hefur aðeins 12 stig í 16. sæti.

De Bruyne með stórkostlegt mark

Það voru kunnuleg nöfn sem afgreiddu Leicester fyrir Manchester City. Gabriel Jesus kom City á bragðið á 45. mínútu og Belginn frábæri Kevin de Bruyne skoraði svo fjórum mínútum síðar með stórkostlegu skoti með vinstri fæti.  Manchester City hefur 34 stig og er með níu stiga forskot á Chelsea í 2. sæti en Manchester United getur minnkað forskot í átta stig með sigri á Newcastle á eftir.

Kevin De Bruyne kemur City í 2:0 gegn Leicester í …
Kevin De Bruyne kemur City í 2:0 gegn Leicester í dag með frábæru vinstri fótar skoti. AFP

Hazard með tvö

Chelsea valtaði yfir WBA, 4:0, þar sem Belginn Eden Hazard var í miklu stuði og skoraði tvö mörk. Hin mörkin skoruðu Alvaro Morata, sem er kominn með átta mörk í deildinni og er næstmarkahæstur, og bakvörðurinn Marcos Alonso sem hefur skorað þrjú mörk. Chelsea hefur 25 stig í 2. sæti en Manchester United getur farið upp fyrir liðið með sigri á Newcastle á eftir.

Eden Hazard var öflugur hjá Chelsea í dag.
Eden Hazard var öflugur hjá Chelsea í dag. AFP

Frábært gengi Burnley heldur áfram

Jóhann Berg Guðmundsson lék allan leikinn hjá Burnley sem vann 2:0 sigur á Swansea. Burnley heldur áfram frábæru gengi sínu í deildinni en liðið hefur 22 stig í 7. sæti. Eftir tap gegn Manchester City 21. október hefur Burnley ekki tapað leik í deildinni síðan í ágúst er liðið lá gegn WBA, 1:0, og kannski ekki mikil furða að Sean Dyche stjóri liðsins hafi verið orðaður við starf knattspyrnustjóra Everton að undanförnu.

Wilson með þrennu

Bournemouth vann svo öruggan sigur á Huddersfield, 4:0, en liðið lék manni færri allan síðari hálfleikinn. Callum Wilson skoraði þrennu, skoraði tvívegis í fyrri hálfleik og SImon Francis fékk rautt spjald á 45. mínútu. Það breytti engu þar sem Harry Arter skoraði þriðja mark Bournemouth á 70. mínútu. Wilson fullkomnaði svo þrennuna á 84. mínútuna og rak síðasta naglann í kistu Huddersfield. Bournemouth hefur 13 stig í 13. sæti en Huddersfield 15 stig í 10. sæti.

Liverpool 3:0 Southampton opna loka
90. mín. Leik lokið Liverpool vinnur öruggan 3:0 sigur.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert