Eiður einn besti varamaðurinn í sögu Chelsea

Eiður Smári Guðjohnsen í búningi Chelsea.
Eiður Smári Guðjohnsen í búningi Chelsea. mbl.is/Einar Falur Ingólfsson

Peter Crouch setti met í ensku úrvalsdeildinni um síðustu helgi er hann kom í 143. skiptið inn á sem varamaður í deildinni. Á heimasíðu Chelsea er farið yfir þessa tölfræði varðandi félagið og þar kemur einn besti knattspyrnumaður okkar Íslendinga fyrr og síðar, Eiður Smári Guðjohnsen, við sögu.

Á toppi listans hjá Chelsea trónir Didier Drogba en hann kom 67 sinnum inn á sem varamaður hjá Chelsea í deildinni. John Obi Mikel kom inn á 66 sinnum og Salomon Kalou 65 sinnum. Eiður Smári og Joe Cole koma næstir.

Fáir standast Eiði þó snúning er varðar skilvirkni í hlutverki varamanns en hann er í hópi fárra leikmanna sem náð hafa tveggja stafa tölu í markaskorun eftir að hafa komið inn á sem varamenn hjá Chelsea.

Drogba skoraði 15 mörk í deildinni sem varamaður og 18 í öllum keppnum. Norðmaðurinn Tore Andre Flo skoraði 13 mörk sem varamaður og öll komu þau í ensku úrvalsdeildinni. Kalou skoraði 15 mörk sem varamaður í öllum keppnum og Eiður Smári 11 stykki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert