Klopp kemur þeim óvinsæla til varnar

Jürgen Klopp.
Jürgen Klopp. AFP

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri enska úrvalsdeildarliðsins Liverpool kom Alberto Moreno, varnarmanni sínum, til varnar á blaðamannafundi í dag þar sem hann sat fyrir svörum vegna leiks Liverpool og Chelsea í ensku úrvalsdeildinni á morgun.

Moreno gerði sig sekan um slæm varnarmistök í tvígang í leik Liverpool gegn Sevilla í Meistaradeild Evrópu er varð til þess að spænska liðið komst inn í leikinn en Liverpool missti niður 3:0 forskot sitt í hálfleik í jafntefli í leik þar sem sigur hefði fleytt liðinu áfram í 16-liða úrslit.

Moreno var tekinn af velli eftir 63. mínútna leik en á fyrstu 15 mínútum síðari hálfleiks fékk Moreno dæmda á sig vítaspyrnu og aukaspyrnu sem leiddu til tveggja marka Sevilla.

Moreno hefur oft verið gagnrýndur af stuðningsmönnum Liverpool og sér í lagi af fyrrum leikmanni liðsins, Jamie Carragher, sparkspekingi á Sky Sports. Minna hefur farið fyrir slíkri umræðu á þessu tímabili vegna góðrar frammistöðu Moreno en leikurinn gegn Sevilla rifjaði upp óþægilegar minningar fyrir marga.

„Ég spjallaði vði Alberto. Það á ekki að kenna honum um þetta. Ég er 100% ábyrgur,“ sagði Klopp.

„Það eru mjög margir þarna úti sem eru að segja „Halló!“.  Hann missti kannski einbeitinguna um örfá prósent,“ sagði Klopp.

„Já vítaspyrnan var á Alberto og aukaspyrnan. En það er ekki bara einn leikmaður sem er ábyrgur.

Af hverju spiluðum við ekki boltanum til baka í öðru markinu?

Af hverju var boltinn á milli tveggja leikmanna okkar í síðasta markinu?

Ég gæti horft á liðsvalið hjá mér og hefði getað gert breytingar fyrr. En ég sagði honum [Moreno] að ég bæri fullkomið traust til hans,“ sagði Klopp.

Alberto Moreno.
Alberto Moreno. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert