Zlatan fékk mikið hrós

Zlatan Ibrahimovic er snúinn aftur eftir erfið meiðsli.
Zlatan Ibrahimovic er snúinn aftur eftir erfið meiðsli. AFP

José Mourinho, knattspyrnustjóri Manchester United, hefur staðfest að þeir Phil Jones og Eric Bailly verði fjarri góðu gamni vegna meiðsla gegn Brighton í ensku úrvalsdeildinni á morgun. Þá staðfesti hann að Paul Pogba muni byrja leikinn, en geti þó ekki spilað í 90 mínútur.

Zlatan Ibrahimovic er snúinn aftur eftir meiðsli og Mourinho hrósaði honum á fréttamannafundi í dag.

„Hann er alltaf til staðar og alltaf jákvæður, hann hefur mjög góð áhrif á liðið. Það skiptir ekki máli hvort hann sé að spila eða ekki, og það er ekki síður mikilvægt. Hann er annar kostur fyrir okkur í framlínunni og það er ómögulegt að [Romelu] Lukaku spili alla leiki, svo við þörfnumst hans. En hann þarf tíma. Við höfum gefið honum 15-20 mínútur í tveimur leikjum og hann þarf meira af því,“ sagði Mourinho.

United er í öðru sæti fyrir 13. umferð deildarinnar, átta stigum á eftir Manchester City, en Brighton er í 9. sætinu.

„Brighton er gott lið, það er erfitt að brjóta það á bak aftur enda fær liðið fá mörk á sig,“ sagði Mourinho.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert