Útilokar ekki að hann fari frá Liverpool

Jordan Henderson fagnar með Philippe Coutinho.
Jordan Henderson fagnar með Philippe Coutinho. AFP

Philippe Coutinho, Brasilíumaðurinn frábæri í liði Liverpool, viðurkennir að hann sé ekki viss um það hvort hann verði hjá Liverpool út tímabilið en fregnir herma að Barcelona sé að undirbúa enn eitt tilboðið í Brassann.

Coutinho var aðalskotmark Barcelona í sumar en Liverpool hafnaði ítrekað tilboðum í leikmanninn og tjáði Börsungum að hann færi hvergi en hæsta tilboð Barcelona í Brasilíumanninn hljóðaði upp á 120 milljónir evra.

Coutinho skoraði þrennu í 7:0 sigri Liverpool gegn Spartak Moskva í Meistaradeildinni í gærkvöld og hefur þar með skorað 9 mörk í þeim 13 leikjum sem hann hefur komið við sögu í.

„Ég er í Liverpool og ég geri alltaf mitt besta þegar ég fæ tækifæri til þess að spila. Í veit ekki hvernig framtíðin verður. Hvað gerist í janúar munum við vita í janúar. Ég veit ekki hvort það komi tilboð,“ sagði Coutinho eftir leikinn í gær.

„Auðvitað gerðist margt í sumar en minn vilji er alltaf að spila og gera mitt besta hvar sem ég er og það hefur ekkert breyst.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert