Þeir hrintu hver öðrum fram og til baka

Leikmenn Manchester City fögnuðu í leikslok og enn meira þegar …
Leikmenn Manchester City fögnuðu í leikslok og enn meira þegar til búningsklefa var komið. Þá fór allt úr böndunum. AFP

Atburðarásin í leikmannagöngunum og framan við búningsklefana á Old Trafford á sunnudaginn þegar leikmönnum og starfsmönnum Manchester United og Manchester City lenti saman eftir viðureign liðanna í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu hefur verið opinberuð.

Daily Mail hefur dregið fram ítarlega lýsingu á því sem gerðist en áður hafði komið fram að José Mourinho knattspyrnustjóri United hefði verið rennblautur og útataður í mjólk, eftir að hafa rifist heiftarlega við nokkra leikmenn City. Þá hafi Mikel Arteta, sem er í þjálfarateymi City, verið blóðugur í andliti eftir hasarinn.

Atburðarásin mun hafa  verið um það  bil á þennan veg, samkvæmt lýsingu Daily Mail:

Leikmenn United munu hafa orðið pirraðir á gríðarlegum fagnaðarlátum leikmanna City í leikslok og þá upphófst orðaskak þar sem ýmsu lítt prenthæfu var kallað yfir ganginn á milli búningsklefanna, aðallega á spænsku og portúgölsku.

Mourinho er þá sagður hafa rokið í átt að búningsklefa City-manna og fljótlega lent í rimmu við Ederson markvörð City í anddyri klefans þar sem þeir hafi rifist á  bæði portúgölsku og ensku. Ederson er sagður hafa gengið ógnandi að Mourinho.

Mourinho er sagður hafa sagt brasilíska markverðinum að sýna andstæðingum sínum meiri virðingu, og þá hafi United-menn einnig ásakað markvörðinn um leikaraskap í kjölfar þess að hann fékk boltann í andlitið þegar Romelu Lukaku skaut af stuttu færi seint í leiknum.

Þá fékk Mourinho vatnsflösku í höfuðið og rennblotnaði. Leikmenn United töldu fyrst að Ederson hefði verið þar að verki en í ljós kom að flöskunni var kastað innan úr búningsklefa City. Kallað var inn í klefa United: „Flösku var hent í stjórann."

„José varð gjörsamlega brjálaður þegar hann fékk flöskuna í sig og eftir það fór allt í háaloft," sagði heimildarmaður Daily Mail.

Marcus Rojo, miðvörður United, sem hafði yfirgefið völlinn í hálfleik eftir að hafa skallað saman við David Silva, var fyrstur leikmanna United til að koma Mourinho til aðstoðar, og honum fylgdi ævareiður Antonio Valencia, og í kjölfarið komu Marcus Rashford, Axel Tuanzebe, Ander Herrera og Luke Shaw.

Leikmenn City þustu þá út úr sínum búningsklefa og á ganginum upphófust átök sem viðstaddir lýstu sem barningi tveggja ruðningsliða.

„Leikmennirnir hrintu hver öðrum fram og til baka og allir voru að reyna að búa sér til svigrúm til að koma höggi á andstæðing," segir heimildamaður Daily Mail.

Fernandinho, miðjumaður City, er sagður hafa fengið högg og af City-mönnum eru fyrirliðinn Vincent Kompany og Nicolas Otamendi sagðir hafa verið fremstir í flokki í átökunum. Á hinn bóginn hafi t.d. Sergio Agüero og Bernardo Silva haldið sig til hlés. Önnur flaska hafi komið fljúgandi og lent í andliti Mikel Arteta. Líklega hafi Romelu Lukaku kastað henni.

Fabian Delph, varnarmaður City, var í sjónvarpsviðtali og Kevin de Bruyne var í lyfjaprófi áður en hann fór í viðtal og þeir voru því ekki nærri.

Enn fleiri leikmenn og þjálfarar úr báðum liðum blönduðu sér í hasarinn, um 30 manns slógust á ganginum þegar mest var, og þegar mjólkurfernu var kastað að Mourinho fengu nokkrir aðstoðarmanna hans vel útilátið mjólkurbað.

Michael Carrick, sem ekki tók þátt í leiknum með United, reyndi að stöðva slagsmálin. Hann sakaði City-menn um skort á  virðingu og hvatti leikmenn United til að hverfa aftur til búningsklefa síns.

Þessi læti stóðu yfir í um tvær mínútur áður en öryggisverðir náðu að skilja slagsmálahundana að og stilltu til friðar.

Í kjölfar þess sást Mourinho storma í áttina að búningsklefa dómaranna, væntanlega til að ræða einhverjar ákvarðanir þeirra, en hann vildi m.a.  fá vítaspyrnu þegar hann taldi Otamendi hafa  brotið á Herrera seint í leiknum. Inn til dómaranna var hinsvegar harðlokað og lögregla á verði fyrir utan. Mikael Oliver dómari og hans menn sáu ekki atvikið og sendu ekki skýrslu um það til knattspyrnusambandsins.

Mikel Arteta varð greinilega fyrir meiðslum, haft er eftir vitnum að um kvöldið hafi hann sést á veitingastað með sauma í andlitinu, en hann gaf ekki færi á myndatökum þegar hann mætti á æfingasvæði City í morgun.

Eins og fram hefur komið hefur knattspyrnusambandið gefið félögunum frest til miðvikudags til að skila greinargerðum um það sem átti sér stað. Engar öryggismyndavélar eru í göngunum á Old Trafford þannig að ekki er hægt að styðjast við það.

Annað atvik er líka til skoðunar en blys mun hafa lent rétt hjá Bernardo Silva, leikmanni City, þegar hann tók hornspyrnu seint í leiknum.

Umfjöllun Daily Mail.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert