Breytingarnar hafa ekkert með þetta að gera

Jürgen Klopp.
Jürgen Klopp. AFP

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri enska úrvalsdeildarliðsins Liverpool, neitar því að örar breytingar hans á byrjunarliði liðsins séu að skapa vandamál Liverpool í dag en liðið hefur gert tvö „jafntefli í röð á Anfield.

Klopp hefur gert 65 breytingar á byrjunarliði sínu á tímabilinu. Næstur kemur Antonio Conte hjá Chelsea með 42 breytingar. Pep Guardiola hjá Manchester City hefur aftur á móti breytt byrjunarliði sínu tvöfalt sjaldnar eða 34 sinnum.

Klopp gerði 12 breytingar á liði sínu í síðustu viku en segir að þær séu nauðsynlegar og að liðið bjóði upp á það.

„Við höfum gert tvö jafntefli heima. Það er eðlilegt að við fáum gagnrýni en þetta voru tveir algjörlega ólíkir leikir,“ sagði Klopp.

„Everton-leikurinn var mjög góður af okkar hálfu. Einn besti grannaslagur sem ég hef séð frá því að ég tók við. En röng úrslit. Við vorum óheppnir,“ sagði Klopp.

Liverpool gerði svo markalaust jafntefli í miðri viku gegn West Bromwich á Anfield.

„Ef ég á að vera hreinskilinn þá áttum við enga heppni skilið. Það var ekki góð frammistaða. Við spiluðum ekki eins vel og við getum,“ sagði Klopp.

„Tímasetningarnar hjá okkur voru slakar, flæðið ekki nógu mikið og sendingarnar ekki með besta móti. Þannig var það. Ekki góður leikur - en við höfum ekki átt marga slaka leiki undanfarnar vikur,“ sagði Klopp.

„Ég held að breytingarnar hafi ekkert með þetta að gera,“ sagði Klopp um úrslitin í síðustu tveimur leikjum.

„Þetta er mitt starf. Við þurfum að ganga úr skugga um að hafa alla klára í slaginn. Við teljum líka að liðið bjóði upp á þetta,” sagði Klopp.

„Jafnvel leikmennirnir sem ég er að taka úr liðinu er að spila tvo leiki á viku frekar en þrjá,“ sagði Klopp.

Liverpool mætir Bournemouth á suðurströnd Englands og býst Þjóðverjinn við því að Simon Mignolet verði aftur klár í slaginn eftir smávægileg meiðsli. Óljóst er hvort Daniel Sturridge verði klár en Adam Lallana hefur hafið æfingar að fullu með liðinu og er klár í slaginn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert